Eurovisiondagurinn

Í dag er Eurovisiondagur Íslendinga, þegar allir verða óðir af stemningu. Vinsælt er að halda partý, borða snakk og drekka bjór og kannski ef einhver hefur áhuga, horfa á keppnina sjálfa. Svo fara þeir allra hörðustu á Nasa þar sem Páll Óskar heldur "gleðinni" áfram. Þá syngja blindfullir Íslendingar Nínu og fella tár, þetta var jú bara svo ótrúlega mögnuð stund þegar Eyvi og Stebbi fóru út í pastelgöllunum!

Þetta er ótrúlegt umstang í kring um samansafn af leiðinlegum lögum. Reyndar finnst mér lagið eftir Fabúlu ekkert leiðinlegt, bara verður hálf kjánalegt um leið og það er komið í keppnina. Það er neflilega samhengið sem skiptir máli, ekki endilega hvernig lögin eru ein og sér (þó svo að þau séu flest glötuð að mínu mati). Allt Eurovisionsamhengið. Ragnheiður Gröndal til að mynda vinnur einhvernveginn á mörkum þess að vera "commercial" og þess vegna er hún svona á mörkunum að virka þarna líka.

Ég er kannski ekki algjör aðdáandi eins og einhver les úr þessum orðum en viðurkenni fúslega að ég fylgist með þetta árið. Ætli það sé ekki út af því að Tvíhöfði hefur átt ágætis endurkomu og svo hef ég alltaf ákveðinn áhuga á söngvurum (hvort sem þeir standa sig vel eða illa "life", ég er alltaf tilbúin að dæma...). Ég hef alveg í gegn um árin tekið mig til og fylgst ekki með. Mér er svo sem sama ef ég missi af þessu ef ég hef eitthvað viturlegra að gera. Kannski er ég alltaf að bíða eftir því að eitthvað sögulegt gerist.

Já þetta eru blendnar Eurovision tilfinningar en alltaf finnst mér þetta jafn kjánalegt og jafnvel grunnt. Tala nú ekki um Silvíu Nótt kombakkið þetta árið, Gillz og félaga, það styður allar mínar skoðanir. Eða þá uppstellinguna á Friðriki og Regínu, ég verð bara hrædd. Kannski þau fari út og trylli lýðinn. Samkynhneigðir aðdáendur keppnarinnar, sem eru fjölmargir, yrðu allavega ánægðir með þau.  

Ég fer ekki ofan af því að síðast þegar ég heyrði almennilega skemmtilegan Eurovision flutning, var á LUNGA í partýi á tjaldsvæðinu og Friðjón og Aldís Fjóla sungu "Andvaka" með mjög eftirminnilegri leikrænni tjáningu. Annars segi ég góða skemmtun í kvöld, þið sem haldið á vit dægurlagakeppninnar sívinsælu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband