9.5.2008 | 14:11
Skólalífið tekur við
Skólalífið tekur nú við hjá mér í örstuttan tíma í viðbót. Síðasta prófið í B.A. námi mínu er næsta miðvikudag. Áfanginn heitir Efnismenning, hlutirnir heimilið og líkaminn. Mjög áhugavert og mikið efni til að fara yfir. B.A ritgerðin er líka tilbúin, kannski verð ég orðin listfræðingur með menningarfræði sem aukagrein 14. júní. Sjáum hvað setur.
Hammondhátíðin er búin og gekk mjög vel. Við fengum góðar móttökur á Djúpavogi og eiga aðstandendur heiður skilið. Tónleikarnir á laugardeginum með stórsveit Samma voru líka alveg frábærir, ein mesta tónlistarupplifunin í langan tíma. Skelli inn umsögninni um okkur hér að lokum fyrir forvitna.
Hammondhátíðin 2008 var sett fimmtudaginn 1. maí á Hótel Framtíð á Djúpavogi. Forsprakki hennar frá upphafi hefur verið Svavar Sigurðsson og setti hann hátíðina að viðstöddu fjölmenni. Í upphafi vega var 1. kvöldið tileinkað heimamönnum en nú hefur "útbreiðslusvæðið" verið stækkað og flytjendur sóttir um stóran hluta Austfirðingafjórðungs. Það þýddi að mönnum var boðið upp á vaxandi hornfirzka sveit, ungliðasveit heimamanna og þétta blússveit úr Fjarðabyggð.
Kvöldið hófst með Huldu Rós og Rökkurtríóinu frá Hornafirði. Hulda Rós söng, Sigurður faðir hennar Guðnason lék á gítar, Eymundur Ragnarsson sá um slagverkið og Bjartmar Ágústsson sló bassann, bæði þennan "venjulega" sem og forláta kontrabassa. Í fjarveru Heiðars Sigurðssonar sá hr. Hammond, Svavar Sigurðsson, um að þenja Drottninguna (fyrrum Hammond orgel Karls heitins Sighvatssonar).
Prógrammið hófst rólega hjá bandinu sem lék blús og blússkotin lög eftir Tom Waits, Janis Joplin o.fl. Þegar á leið færðist nokkurt fjör í leikinn með meira tempói og skemmtilegheitum og salurinn tók vel við sér. Bandið var þétt og lítið hægt að setja út á það. Hulda Rós er frábær söngkona sem svo sannarlega á framtíðina fyrir sér. Hún hefur gott vald á röddinni, skemmtilegan tón og hefur þetta "extra" sem þarf til að geta sungið blús. Það hefði þó verið gaman að heyra hana fara oftar upp á háu tónana, því hún getur það auðveldlega.
Sé litið til þess að ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan þessi hljómsveit var stofnuð, er óhætt að segja að hún sé bráðþroska, því erfitt er að trúa aldrinum þegar þéttleikinn kemur í ljós, maður myndi frekar ætla að þarna væri hljómsveit með nokkurra ára reynslu á bakinu. En hljóðfæraleikararnir sem hana skipa eru ýmist mjög vaxandi eða orðnir þaulvanir.
Ef setja ætti út á eitthvað, væri það agavalið sem var kannski heldur mikið á rólegu nótunum, t.a.m. var uppklappið rólegur blússlagari. Engu að síður opnuðu Hulda Rós og Rökkurtríóið Hammondhátíðina með stæl og hituðu gesti upp fyrir það sem koma skyldi.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:13 | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með þetta! Láttu mig bara vita þegar diskurinn kemur út! Í millitíðinni getur þú kíkt á www.streetcowboys.se
Bestu kveðjur
Aðalheiður Haraldsdóttir, 10.5.2008 kl. 12:46
Takk fyrir það, vonandi kemur út diskur í nánustu framtíð. Ég var búin að kíkja á þetta hjá Óla, mjög flott og skemmtilegt að skoða. Flottar myndir. Bið að heilsa öllum.
Hulda Rós Sigurðardóttir, 13.5.2008 kl. 15:03
Mér fannst þú bara flott hulda mín ekkert kjaftæði um að þetta sé róleg lög þau eru svo falleg og grúv fyrir minn smekk en knús til þín kveðja Maríanna Jónsd
Maríanna Jónsdóttir (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 00:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.