5.3.2008 | 20:14
Norðurljósablús 2008 - frábær hátíð
Blúshátíðin er nú afstaðin og ég ætla að koma með nokkra punkta um helgina sem var svo sannarlega frábær í alla staði.
Á fimmtudeginum var hátíðin sett með bandi sem kallaði sig ADHD 800. Hana skipuðu þeir bræður Ómar og Óskar Guðjónssynir, Davíð Þór Jónsson og Magnús Tryggvason Eliassen. Þeir spiluðu einskonar fönk-fusion bræðing með allskonar áhrifum og spuna. Ég hef lengi verið mikill aðdáandi fönk-djass og hlustaði myrkrana á milli á John Scofield fyrir nokkrum árum. Þess vegna fannst mér þetta einstaklega skemmtilegt. Ekki get ég þó annað sagt en sum lögin hafi verið heldur löng, þó svo að það hafi ekki mikið komið að sök. Einhverskonar vímukennd sveif yfir tónlistinni og mikil hemlalaus sköpun sem ég kunni að meta.
Á föstudeginum voru nokkrar hljómsveitir að spila. Á Hótelinu voru Öernes blues band að spila frá klukkan 9. Ég var á fullu að undirbúa mig fyrir okkar atriði sem var strax á eftir en kíkti samt á byrjunina. Þeir spiluðu skemmtilegan blús og voru trúir þessari tónlistarstefnu. Gamlir standardar fengu að njóta sín sem mér þykir alltaf standa fyrir sínu ef vel er að því staðið í blúsnum.
Við áttum svo okkar innkomu inn í hátíðina og hét hljómsveitin (og heitir enn) Hulda Rós og Rökkurtríóið. Tríóið skipa Eymundur (Meysi) Bjartmar og pabbi gamli. Okkur tókst fínt upp og þrátt fyrir að bandið sé nýstofnað þá náðum við ágætlega saman. Mér fannst alveg einstaklega skemmtilegt og frelsandi að fá loksins að syngja mína tónlist, hvað þá eitthvað sem var í ætt við djassinn.
Seinni part kvöldsins voru svo Mæðusveitin, Grasrætur og Blúsbrot Garðars. Ég rölti á milli og líkaði við allt sem ég heyrði. Ég hafði heyrt í Garðari og félögum áður og hef alltaf jafn gaman af Þorleifi á bassanum. Hann er einn af þessum sem er bassinn. Grasrætur er band sem ég bíð spennt eftir að heyra plötu frá, þeir eru einfaldlega alveg einstakir á íslenskum mælikvarða og þótt víða væri leitað. Svo verð ég að viðurkenna að Mæðusveitin er alltaf að bæta sig, farnir að æfast vel saman. Vonandi halda þeir áfram í blúsharkinu.
Á laugardeginum var haldið á tónleika á Emil & the Ecstatics og Öernes blues band. Gaman var að sjá alla ungu áhugamennina um tónlistina, flesta með nammipoka við hönd. Eftir það tók svo við blúsdjamm sem er alltaf jafn skemmtilegt, sjá einhverja nýja spreyta sig og koma fram.
Um kvöldið fórum við á Emil & the Ecstatics aftur og var þá þá í annað skipti sem ég sé þá félaga. Þeir komu til Hornafjarðar fyrst á Norðurljósablús 2006 við mikinn fögnuð bæjarbúa. Ég get ekki að því gert að brosa og kætast þegar ég horfi á þá spila því þeir eru með skemmtilega framkomu. Dæmi um það er hvernig trommuleikarinn einhvernveginn dansar með spilamennskunni og Emil spilar á gítarinn á bakinu á sér. Aðrar hljómsveitir voru svo Street Cowboys, Johnny and the rest og VAX.
Ég staldraði lengst við á Street Cowboys frá Svíþjóð meðal annars til að fylgjast með Óla Kalla frænda mínum sem var trommuleikari í þeirri hljómsveiti. Þeir voru hressilegir og spiluðu mest Rockabilly. Ég kunni að meta það hvernig gítarleikarinn spilaði því hann var ekki eins "sóló" hlynntur og fyrri bönd, skemmtilegt að heyra eitthvað nýtt. Johnny and the Rest voru á Víkinni og ég kom akkurat inn í of miklum hávaða. Ég hef svo sem oft séð þá spila í bænum og veit vel að þetta er afar fín hljómsveitmeð fílínginn á réttum stað. VAX voru svo á djamminu og spiluðu fólk upp úr dansskónum. Söngvarinn hefði þó mátt sleppa nokkrum sjússum og einbeita sér að tónlistinni. Þrátt fyrir það þá voru þeir alltaf með jafn gott lagaval!
Þá var þessi hátíð öll og ég get ekki annað sagt en ég og allir sem ég hef heyrt í hafi verið mjög ánægðir með hana. Blúsinn og hátíðin er greinilega á uppleið og hver veit nema "elítan" úr Reykjavík fari að hafa vit á að leggja við hlustir á næstu Norðurljósablúshátíðum. Reyndar náðu Hornfirðingar, vinir, vandamenn og tónlistarmenn nánast að fylla hvern viðburðinn svo að greinilega er áhuginn til staðar, hann þarf bara að auka og halda við.
Blúsfagnaðarerindið heldur áfram að berast...
Að lokum vil ég benda á síðuna hjá Sigurði Mar www.marason.blog.is þar sem meira er um hátíðina ásamt myndum sem honum einum er lagið að taka.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.