Færsluflokkur: Menning og listir
29.3.2008 | 11:44
Bessie Smith
Ég er búin að eyða páskafríinu í að hlusta á mikið af gamalli og góðri blús og djasstónlist. Mér finnst upphafið á þessu alveg frábært og rétt upp úr aldamótum 1900 fóru margir ágætir hlutir að gerast.
Þær konur sem ég hef verið að skoða eru til að mynda Bessie Smith en hún hafði ótrúlega kröftuga blúsrödd. Upptökurnar sem eru til með henni eru mjög gamlar og setur það svip sinn á lögin sem mér finnst reyndar bara bæta þau. Tilfinningin er að vera komin á einhvern bar eftir fyrri heimstyrjöld og hlusta á sorgarraunir þeldökkrar konu.
Bessie átti uppruna sinn í sýningum og kabarettum sem setur sinn stíl á sönginn. Blúsinn er reyndar oft fluttur í ákveðnum ,,kabarett" stíl á þessum tíma, klassískur blús hefur það verið kallað, sérstaklega hjá kvenlistamönnum á meðan karlmennirnir voru í hinum hefðbundnari delta stíl. Blúsinn skín þó afar skært í gegn hjá Bessie Smith og þrátt fyrir að hafa ekki mikið tónsvið þá meinar hún virkilega það sem hún syngur.
Mæli með því að sannir blúsáhugamenn reyni að ná sér í gamlar upptökur með Bessie og fá tímabilið beint í æð. Eitt fallegasta lagið að mínu mati er Empty Bed blues en það var jafnframt eitt frægasta lag hennar fyrr og síðar.
Reyndar eru fleiri söngkonur á svipuðum tíma, Ida Cox, Ethel Water og Trixie Smith sem vert er að skoða í leiðinni. Bessie náði þó hvað lengst af þeim og hefur oft verið sögð fyrsta kvenblússöngkonan til þess að ná langt og öðlast ,,frægð" eða allavega mikla virðingu í tónlistarbransanum.
In the beginning, Adam had the blues,
´cause he was lonesome.
So God helped him and created a woman.
Now everybody´s got the blues.
- Willie Dixon
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2008 | 20:14
Norðurljósablús 2008 - frábær hátíð
Blúshátíðin er nú afstaðin og ég ætla að koma með nokkra punkta um helgina sem var svo sannarlega frábær í alla staði.
Á fimmtudeginum var hátíðin sett með bandi sem kallaði sig ADHD 800. Hana skipuðu þeir bræður Ómar og Óskar Guðjónssynir, Davíð Þór Jónsson og Magnús Tryggvason Eliassen. Þeir spiluðu einskonar fönk-fusion bræðing með allskonar áhrifum og spuna. Ég hef lengi verið mikill aðdáandi fönk-djass og hlustaði myrkrana á milli á John Scofield fyrir nokkrum árum. Þess vegna fannst mér þetta einstaklega skemmtilegt. Ekki get ég þó annað sagt en sum lögin hafi verið heldur löng, þó svo að það hafi ekki mikið komið að sök. Einhverskonar vímukennd sveif yfir tónlistinni og mikil hemlalaus sköpun sem ég kunni að meta.
Á föstudeginum voru nokkrar hljómsveitir að spila. Á Hótelinu voru Öernes blues band að spila frá klukkan 9. Ég var á fullu að undirbúa mig fyrir okkar atriði sem var strax á eftir en kíkti samt á byrjunina. Þeir spiluðu skemmtilegan blús og voru trúir þessari tónlistarstefnu. Gamlir standardar fengu að njóta sín sem mér þykir alltaf standa fyrir sínu ef vel er að því staðið í blúsnum.
Við áttum svo okkar innkomu inn í hátíðina og hét hljómsveitin (og heitir enn) Hulda Rós og Rökkurtríóið. Tríóið skipa Eymundur (Meysi) Bjartmar og pabbi gamli. Okkur tókst fínt upp og þrátt fyrir að bandið sé nýstofnað þá náðum við ágætlega saman. Mér fannst alveg einstaklega skemmtilegt og frelsandi að fá loksins að syngja mína tónlist, hvað þá eitthvað sem var í ætt við djassinn.
Seinni part kvöldsins voru svo Mæðusveitin, Grasrætur og Blúsbrot Garðars. Ég rölti á milli og líkaði við allt sem ég heyrði. Ég hafði heyrt í Garðari og félögum áður og hef alltaf jafn gaman af Þorleifi á bassanum. Hann er einn af þessum sem er bassinn. Grasrætur er band sem ég bíð spennt eftir að heyra plötu frá, þeir eru einfaldlega alveg einstakir á íslenskum mælikvarða og þótt víða væri leitað. Svo verð ég að viðurkenna að Mæðusveitin er alltaf að bæta sig, farnir að æfast vel saman. Vonandi halda þeir áfram í blúsharkinu.
Á laugardeginum var haldið á tónleika á Emil & the Ecstatics og Öernes blues band. Gaman var að sjá alla ungu áhugamennina um tónlistina, flesta með nammipoka við hönd. Eftir það tók svo við blúsdjamm sem er alltaf jafn skemmtilegt, sjá einhverja nýja spreyta sig og koma fram.
Um kvöldið fórum við á Emil & the Ecstatics aftur og var þá þá í annað skipti sem ég sé þá félaga. Þeir komu til Hornafjarðar fyrst á Norðurljósablús 2006 við mikinn fögnuð bæjarbúa. Ég get ekki að því gert að brosa og kætast þegar ég horfi á þá spila því þeir eru með skemmtilega framkomu. Dæmi um það er hvernig trommuleikarinn einhvernveginn dansar með spilamennskunni og Emil spilar á gítarinn á bakinu á sér. Aðrar hljómsveitir voru svo Street Cowboys, Johnny and the rest og VAX.
Ég staldraði lengst við á Street Cowboys frá Svíþjóð meðal annars til að fylgjast með Óla Kalla frænda mínum sem var trommuleikari í þeirri hljómsveiti. Þeir voru hressilegir og spiluðu mest Rockabilly. Ég kunni að meta það hvernig gítarleikarinn spilaði því hann var ekki eins "sóló" hlynntur og fyrri bönd, skemmtilegt að heyra eitthvað nýtt. Johnny and the Rest voru á Víkinni og ég kom akkurat inn í of miklum hávaða. Ég hef svo sem oft séð þá spila í bænum og veit vel að þetta er afar fín hljómsveitmeð fílínginn á réttum stað. VAX voru svo á djamminu og spiluðu fólk upp úr dansskónum. Söngvarinn hefði þó mátt sleppa nokkrum sjússum og einbeita sér að tónlistinni. Þrátt fyrir það þá voru þeir alltaf með jafn gott lagaval!
Þá var þessi hátíð öll og ég get ekki annað sagt en ég og allir sem ég hef heyrt í hafi verið mjög ánægðir með hana. Blúsinn og hátíðin er greinilega á uppleið og hver veit nema "elítan" úr Reykjavík fari að hafa vit á að leggja við hlustir á næstu Norðurljósablúshátíðum. Reyndar náðu Hornfirðingar, vinir, vandamenn og tónlistarmenn nánast að fylla hvern viðburðinn svo að greinilega er áhuginn til staðar, hann þarf bara að auka og halda við.
Blúsfagnaðarerindið heldur áfram að berast...
Að lokum vil ég benda á síðuna hjá Sigurði Mar www.marason.blog.is þar sem meira er um hátíðina ásamt myndum sem honum einum er lagið að taka.
27.2.2008 | 19:25
Norðurljósablús
Nú er Norðurljósablús 2008 óðfluga að nálgast en hátíðin byrjar annað kvöld með hljómsveit Ómars og Óskars (Guðjónssynir) ADHD 800. Ég get ekki annað sagt en að ég sé orðin frekar spennt og erum við búin að vera að æfa nokkuð í þessari viku fyrir okkar "gigg".
Margar góðar hljómsveitir verða á þessari blúshátíð og eins gott að halda vel á spöðunum til að sjá sem mest. Ætla að sjá Óla Kalla með sænsku sveitina sína Street Cowboys, svo eru ungu hljómsveitirnar allar góðar. Reyndar er dagskráin í heild frekar áhugaverð fyrir allt tónlistaráhugafólk. Ég ætla að reyna að koma með einhvað frá hverju kvöldi hér inn og jafnvel myndir með því ef tæknin leyfir..hver veit.
Í dag spiluðum við í útvarpinu, ég og pabbi, tókum eitt gamalt og gott Trouble in Mind. Það kom einhverju smá fiðrildi af stað í maganum fyrir helgina...
Annars hvet ég alla sem hafa áhuga að skella sér með fyrstu flugvél á Hornafjörð því það er ekki seinna vænna en að upplifa alvöru blús stemningu og það núna um helgina!
www.skemmtifelag.is - dagskráin og fleiri upplýsingar.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.2.2008 | 14:52
Eurovisiondagurinn
Þetta er ótrúlegt umstang í kring um samansafn af leiðinlegum lögum. Reyndar finnst mér lagið eftir Fabúlu ekkert leiðinlegt, bara verður hálf kjánalegt um leið og það er komið í keppnina. Það er neflilega samhengið sem skiptir máli, ekki endilega hvernig lögin eru ein og sér (þó svo að þau séu flest glötuð að mínu mati). Allt Eurovisionsamhengið. Ragnheiður Gröndal til að mynda vinnur einhvernveginn á mörkum þess að vera "commercial" og þess vegna er hún svona á mörkunum að virka þarna líka.
Ég er kannski ekki algjör aðdáandi eins og einhver les úr þessum orðum en viðurkenni fúslega að ég fylgist með þetta árið. Ætli það sé ekki út af því að Tvíhöfði hefur átt ágætis endurkomu og svo hef ég alltaf ákveðinn áhuga á söngvurum (hvort sem þeir standa sig vel eða illa "life", ég er alltaf tilbúin að dæma...). Ég hef alveg í gegn um árin tekið mig til og fylgst ekki með. Mér er svo sem sama ef ég missi af þessu ef ég hef eitthvað viturlegra að gera. Kannski er ég alltaf að bíða eftir því að eitthvað sögulegt gerist.
Já þetta eru blendnar Eurovision tilfinningar en alltaf finnst mér þetta jafn kjánalegt og jafnvel grunnt. Tala nú ekki um Silvíu Nótt kombakkið þetta árið, Gillz og félaga, það styður allar mínar skoðanir. Eða þá uppstellinguna á Friðriki og Regínu, ég verð bara hrædd. Kannski þau fari út og trylli lýðinn. Samkynhneigðir aðdáendur keppnarinnar, sem eru fjölmargir, yrðu allavega ánægðir með þau.
Ég fer ekki ofan af því að síðast þegar ég heyrði almennilega skemmtilegan Eurovision flutning, var á LUNGA í partýi á tjaldsvæðinu og Friðjón og Aldís Fjóla sungu "Andvaka" með mjög eftirminnilegri leikrænni tjáningu. Annars segi ég góða skemmtun í kvöld, þið sem haldið á vit dægurlagakeppninnar sívinsælu.
19.2.2008 | 21:30
Blúsinn læknar öll mein
Nú er að koma að því að Norðurljósablús verður haldin í þriðja skipti á Höfn í Hornafirði eða núna um mánaðarmótin. Í mínum huga er þetta alltaf jafn mikill viðburður fyrir Hornfirðinga og ekki síður Íslendinga. Rétt eins og þegar hver blúshátíðin er haldin hér á Íslandi, þá kemur saman fólk sem deilir sömu áhugamálum. Oftar en ekki er þetta passlega stór hópur sem mætir aðeins til þess að skemmta sér og fíla sig með einum mesta lækningarmátti sem til er: tónlistinni.
Í mínum huga hefur blústónlist einmitt lækningarmátt. Hún leyfir manni að vera bitrum endrum og eins. Hún styður mann og lætur manni finnast eins og kannski hafi einhver verið jafn sorgmæddur og maður sjálfur...jafnvel sorgmæddari. Það er einmitt það sem góður blústónlistarmaður gerir, setur sál sína í verkið og skapar ákveðna samkennd með hlustandanum.
Ég var í partýi um daginn og skellti því í umræðuna að það væri allt í lagi að vera stundum bitur út í lífið eða leiður, hvað væri að því? Hvað væri að því að horfa inn á við stundum og leyfa sér að vera mannlegur. Það var horft á mig eins og ég væri þunglynd eða jafnvel eitthvað óeðlilegt við mig, bíddu viltu ekki vera hamingjusöm? Ég velti fyrir mér hvort þau hefðu ekki hlustað nógu mikið á blús til að skilja mig. Að mínu mati hjálpar það okkur að verða hamingjusöm ef við tökumst á við rammleikann þegar hann kemur. Það gerir lítið að synda á einhverri meðal gleði og upplifa aldrei neinar breytingar, með tilbúið og æft bros þegar það á við og jafnvel þegar það á ekki við.
Þannig virkar blústónlist á mig. Á einhvern undarlega jákvæðan hátt í öllu vonleysinu. Lífið er jú eftir allt erfitt og við mætum mörgum hindrunum og ákvarðanatökum. Lífið er líka gott og fallegt, sérstaklega þegar við vöknum eftir kaldan rigningardag eða erfiða nótt og sólin einhvernveginn skín bara að ástæðulausu.
Aftur að blúshátíð hér í lokin. Ég held að allir sem hafa áhuga á tónlist sem sýnir tilfinningar og vekur upp tilfinningar ættu að prófa að fara á blúshátíð. Þá er ég líka að tala um óstjórnlegar gleðitilfinningar. Hvar er það þá betra en í slíkri náttúruparadís sem mér finnst Hornafjörður vera í öllu mínu óhlutleysi. Þar verður blúsinn um mánaðarmótin, umkringdur fallegri náttúru, umvafinn og skapaður af skemmtilegu fólki.
11.2.2008 | 12:38
Allt í reyk
Fimmtudaginn síðastliðinn sótti ég tónleika á Gauki á Stöng. Við höfum oft farið á tónleika þar og alltaf hefur það verið ágætt. Staðurinn er frekar stór og ekki beint um kósýheit að ræða en eitthvað kemur í staðinn sem virkar ágætlega, skolað niður með einum bjór í gleri.
Þrjár hljómsveitir voru á dagskrá, Hraun, Hlynur Ben og hljómsveit og svo Múgsefjun. Ég ætlaði hinsvegar ekki að tala um þær neitt sérstaklega. Það sem jókst jafnt og þétt þegar leið á kvöldið var neflilega reykurinn. Drengur sat á næsta borði og keðjureykti. Stúlka sat fyrir aftan hann og reykti líka álíka mikið. Fljótlega tók ég eftir því þegar ég leit í kringum mig að annað hver maður virtist hafa kveikt sér í rettu þarna inni.
Ég sem hafði fengið svo gott frí frá þessu síðustu mánuði. Mér fannst þetta ekkert lítið óþægilegt og beinlínis dónalegt, það voru mín fyrstu viðbrögð. Óháð því hvort eitthvað sé sett í lög eða ekki, þá var ég einfaldlega orðin vön því að vera blessunarlega laus við reykinn. Þegar hann kom aftur, fann ég hversu óþægilegt það var. Hvað þá þegar ég var komin heim og hárið á mér angaði af "djamminu".
Ég velti líka fyrir mér hvað fyrir þeim vakti sem reyktu eins mikið og þau gátu á eins áberandi hátt og þau gátu. Eru þetta skipulögð mótmæli meðal reykingamanna? Eða langar þeim einfaldlega að kveikja sér í og er slétt sama um lög þessa lands?
Nú veit ég að það er engin alvarleg refsing við þessu víst og þess vegna sé öllum slétt sama um að brjóta lögin. Ég hugsa hinsvegar um skemmtistaðina og heiður þeirra. Það þurfti að hafa allt opið á Gauknum til þess að lofta út. Nú var ekki beint sumarveður og þess vegna skalf maður úr kulda þarna fyrir vikið, í alveg jafn miklum reyk. Endar þetta ekki með því að eftir stendur fullur salur af reykingafólki, í úlpunum sínum að púa reykinn.
Eitthvað var vitlaust við ástandið og ljóst að annaðhvort þarf ríkistjórn eða eigendur skemmtistaða að endurskoða þessi mál.
22.1.2008 | 20:30
Góð stemning á Organ á laugardaginn
Tónleikar til heiðurs Janis Joplin
Hvar: Skemmtistaðnum Organ
Hvernær: Klukkan 10.
Þegar við komum á Organ að við héldum vel fyrir 10 til að ná sætum var þar allt læst. Húsið átti semsagt að opna á slaginu tíu og því myndaðist dágóð röð sem náði að Gauknum. Þegar komið var inn kom í ljós að það voru um það bil 30 sæti í boði. Við náðum þó sætum en fljótlega sáum í hvað stefndi. Það átti neflilega ekkert sérstaklega að sitja, heldur að troða sér og standa.
Tónleikarnir byrjuðu þó fljótlega en ekki klukkutíma síðar eins og hræðsla var um í byrjun. Fyrst steig Daníel Ágúst á svið þar sem hann var að flýta sér. Við litum á félaga hans Björn Jörund sem var kominn að sækja hann. Á eftir Bee Gees laginu ,,To love somebody" steig svo hin krullhærða Kenya á svið. Hún söng með silkirödd í lagi sem tók fljótt enda. Þá fór þetta að rúlla mjög fljótlega í gegn. Rósa í Sometime söng lagið Summertime og gerði það kannski einum of mikið á sinn hátt til þess að það gengi. Eflaust hefur einhverjum aðdáendum hennar þótt þetta ótrúlega listrænt get ég ímyndað mér. Didda tók Mercedes Benz og gerði það ágætlega. Hún komst langt á því að hafa ágætis blús ,,feel". Það var hinsvegar það sem Lay Low tókst ekki.
Þegar Ragnheiður Gröndal söng A woman left lonely var greinilegt að fagmanneskja væri tekin við. Ég verð að segja að þetta er í fyrsta skipti sem ég hef séð Ragnheiði gefa svona góðan kraft í söng sinn. Þarna voru tónleikarnir líka á uppleið. Elíza var kraftmikil og Ester sem enginn þekkti var óhugnarlega lík rokkdrottningunni sjálfri. Ester tók líka mjög erfið lög eins og Bye bye baby.
Þriðji kafli í sýningunni var þegar þurfti að bíða eftir Jenna í Brain Police. Þegar hann mætti ákvað hann þó að gefa allt í botn og tókst vel upp. Andrea Gylfadóttir var síðust á svið og tók 3 lög. Fyrsta lagið var ofsalega þokkafullt hjá henni og sýndi hún hversu magnaða túlkun og tjáningu hún hefur í þessum ,,vímublúsaða" tónlistarstíl. Ég verð seint viðurkenndur Andreu aðdáandi vegna þessara sterku skoðana sem ég fékk í vöggugjöf, en ég viðurkenni fúslega að þetta kvöldið gerði hún virkilega fagmannlega hluti, sem og oftast (og hef ég þá séð hana koma fram oftar en ég get talið).
Semsagt fínir tónleikar í heildina litið þó svo að skipulagið hefði mátt vera betra. Kannski voru einhverjar annarskonar væntingar sem gerðu það að verkum að maður fékk þá tilfinningu, að það væru sæti og allt væri formlegra. Hvað var ég samt að hugsa að tónleikar til heiðurs sjálfri Janis Joplin yrðu formlegir!
Menning og listir | Breytt 23.1.2008 kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2008 | 19:46
A woman only needs one
Janis sýndi strax í æsku mikinn áhuga á skáldskap og tónlist. Rétt eins og með mörg hæfileikabörn þótti Janis óvenjuleg strax sem barn og var af mörgum álitin frekar skrítin. Hún samdi ljóð og fór sínar eigin leiðir. Frekar snemma áttaði hún sig á því að hún hafði sérstakt yndi af blús og sálartónlist. Þegar hún komst svo að því að blúsinn átti einnig vel við hennar hráu rödd hóf hún að syngja blús af krafti og taka lög eftir dívur eins og Bessie Smith, Odettu og Leadbelly.
Janis vissi að tónlistin leitaði fast á hana svo hún fór að koma fram opinberlega þegar hún hafði aldur til. Fyrst í stað kom hún fram á kaffihúsum og skemmtistöðum í litlum bæjum í Texas með litlar tekjur. Hún fór svo að ferðast um USA, meðal annars til New York. Janis fór í háskóla en fann sig ekki innan um námsbækur þótt hún ætti ekki erfitt með að læra. Tónlistin kallaði svo sterkt á hana að ekkert annað komst að.
Árið 1966 fékk Janis fyrsta stóra tækifærið. Rétt eftir að hún byrjaði í Háskólanum í Texas var henni boðið í áheyrnarprufu í San Francisco þar sem verið var að leita að söngkonu í hljómsveit. Umboðsmaður bandsins hafði heyrt í henni syngja á kaffihúsum og þess vegna fékk hann hana í prufurnar. Janis fór, fékk starfið og var þá orðin söngkona í hljómsveitinni "Big Brother and the Holding Company". Hljómsveitin spilaði aðallega rokk, mest í Californiu og hafði starfað í svolítinn tíma. Þeim fannst tími til kominn að fá kvenkyns söngkonu í bandið og passaði Janis vel í bandið. Fljótlega vakti ótrúleg og sérstök rödd Janisar athygli.
Sumarið 1967, sumarið sem hippamenningin var í hámarki spilaði Big Brother á stórum tónleikum á hátíð sem nefndist Monterey International Pop. Þeim gekk svo vel og flutningur þeirra þótti svo góður að plötuútgefendur fóru að rífast um Janis og hljómsveitina. Janis söng þar lagið Ball and Chain og vakti mikla athygli. Þá lagði heimurinn við hlustir.
Hljómsveitinni var stjórnað af einum aðalmanninum í bransanum á þessum tíma, Albert Grossman. Eftir mikið stríð útgáfufyrirtækja, gaf hópurinn út plötu hjá Columbia Records undir stjórn hans. Platan hét Cheap Thrills kom út í ágúst 1968 og fór fljótlega í gull, með lögin Piece of my heart og Summertime. Bandið spilaði á stórum tónleikum og átti marga aðdáendur sem flestir voru aðdáendur Janisar.
Eftir að Big brother hætti gafst Janis þó ekki upp og byrjaði strax að safna saman í nýja hljómsveit. Sam Andrews úr Big Brother fylgdi henni yfir í annað band The kozmic blues band. Í þetta sinn stefndi hún meira í átt að blústónlist, með rokkívafi. Nýja platan hennar hét "I Got Dem 'Ol Kozmic Blues Again, Mama" sem var gefin út í September 1969. Í USA voru misjafnar móttökur en í Evrópu var Janis og hljómsveit hennar vinsælli sem aldrei fyrr. Eftir á að hyggja þykir mörgum þessi plata ein sú besta sem komið hefur út með Janis (þar að meðal undirritaðri). Drykkja og dóp jukust hjá Janis og notaði hún efnin bæði til að viðhalda sköpunargleðinni og höndla frægðina.
The kozmic blues band lifði ekki lengi, en Janis bjó til þriðja bandið Full Tilt Boogie Band, þar sem fagmenn voru í hverju horni. Hún hætti þá á tímabili í dópinu og vildi einbeita sér að því að gera hlutina fagmannlega. Janis fannst hún hafa fundið sig í tónlistinni og blúsnum, í sérstæðum stíl. Þegar hún tók upp næstu plötu Pearl, fór þó hún að nota heróín aftur og í miklum mæli. Hún var komin hálfa leið í átt að gröfinni og endirinn virtist blasa við. Janis fannst svo látin 4. október 1970 inn á hótelherbergi í Hollywood. Orsökin voru úrskurðuð of stór skammtur af eiturlyfjum. Lík Janisar var brennt og ösku hennar dreyft meðfram strandlínu Californiu. Pearl var gefin út og var að mörgu leiti einstök plata þar sem hún hafði barist við sársaukann sem lífið var fyrir henni á sama tíma og platan var hljóðrituð. Hún smitaði frá sér sársauka í lögunum og með einstakri rödd byggði brú milli rokk og blústónlist. Lög eins og Me and Bobby McGee og Mercedes Benz urðu geysivinsæl og platan selst vel enn í dag. Janis átti varð aðeins 27 ára og þó svo hún átti aðeins 4 plötur útgefnar, stimplaði hún sig rækilega inn í tónlistarsöguna.
Janis dó tveimur vikum eftir að Jimi Hendrix dó og fljótlega á eftir dó Jim Morrison. Það má því kannski segja að helsti sjarmi þessa tímabils hafi horfið á stuttum tíma með láti þessara tónlistarmanna. Plötur Janisar hafa selst mikið um allan heim og seljast enn. Hún er ein af vinsælustu tónlistarmönnum hippatímabilsins og goðsögn í söngkvenna frá þessum tíma. Hún lifði skrautlegu lífi og ég held að hún hafi alltaf verið að leita af einhverri lífsfyllingu og hugarró. Hún er enn í dag ein merkilegasta blús- og rokksöngkona í heimi. Fyrir mér er hún ennþá á lífi.
18.1.2008 | 16:46
Tónleikar á morgun
Ég fékk frábærar fréttir í dag. Minn heittelskaði keypti tvo miða á tónleika á Organ á morgun. Þetta eru engir venjulegir tónleikar, heldur afmælistónleikar Janis Joplin þar sem aðeins verða leikin lög og sungin sem hún flutti á sinni skrautlegu ævi. Algjör skyldumæting.
Kannski ég taki einhverjar myndir og setji hingað inn. Þetta eru flottar söngkonur; Andrea Gylfa, Ragnheiður Gröndal, Lay Low og fleiri. Allar jafn ólíkar. Hefði reyndar alveg viljað sjá Kristjönu Stefáns þarna líka. Nokkrar samt sem ég hef ekki séð áður svo mikið eins og Diva de la Rosa (Sometime), Elíza, Kenya og Lísa Páls. Svo eru leynigestir og hljómsveit B.sig með undirleik.
Þetta verður eitthvað....
15.1.2008 | 09:10
Fyrsta fréttatilkynning
Norðurljósablús 2008
Þrjú erlend og sjö íslensk blúsbönd leika á árlegri blúshátíð á Höfn í Hornafirði fyrstu helgina í mars.
Blúshátíðin Norðurljósablús verður haldin í þriðja sinn á Höfn í Hornafirði dagana 29. febrúar til 2. mars næstkomandi. Að þessu sinni var ákveðið að gefa ungu íslenski blústónlistarfólki tækifæri til að koma fram og jafnframt að kynna tónlistarmenn frá norðurlöndunum fyrir landsmönnum. Þrjár sveitir að utan í ár. Øernes blues band frá Danmörku, Higgins blues band frá Smálöndunum í Svíþjóð og síðast en ekki síst Emil & the Ecstatics frá Svíþjóð. Þeir síðastnefndu voru aðal gestir Norðurljósablúss 2006 og gerðu gríðarlega lukku.
Íslensku sveitirnar eru Grasrætur frá Hafnarfirði, Johnny and the rest frá Reykjavík, Blúsbrot frá Stöðvarfirði og Vax frá Egilsstöðum. Tvö hornfirsk bönd leika á hátíðinni, Mæðusveitin Sigurbjörn og Hulda Rós og Rökkurtríóið. Einnig munu Óskar Guðjónsson og félagar stíga á stokk á fimmtudagskvöldinu. Að sjálfsögðu verður blúsdjamm þar sem allir geta fengið að taka grípa í hljóðfæri eða syngja og oft hefur myndast einstök djamm stemmning á Norðurljósablús.
Hornfirska skemmtifélagið hefur veg og vanda að Norðurljósablús í samstarfi við veitingamenn og ferðaþjónustufólk á Hornafirði. Félagið fékk Menningarverðlaun Hornafjarðar á síðasta ári og hefur notið styrkja frá Menningarráði Austurlands.
Nánari upplýsingar:
Sigurður Mar Halldórsson sími 864-0202
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)