19.2.2008 | 21:30
Blúsinn læknar öll mein
Nú er að koma að því að Norðurljósablús verður haldin í þriðja skipti á Höfn í Hornafirði eða núna um mánaðarmótin. Í mínum huga er þetta alltaf jafn mikill viðburður fyrir Hornfirðinga og ekki síður Íslendinga. Rétt eins og þegar hver blúshátíðin er haldin hér á Íslandi, þá kemur saman fólk sem deilir sömu áhugamálum. Oftar en ekki er þetta passlega stór hópur sem mætir aðeins til þess að skemmta sér og fíla sig með einum mesta lækningarmátti sem til er: tónlistinni.
Í mínum huga hefur blústónlist einmitt lækningarmátt. Hún leyfir manni að vera bitrum endrum og eins. Hún styður mann og lætur manni finnast eins og kannski hafi einhver verið jafn sorgmæddur og maður sjálfur...jafnvel sorgmæddari. Það er einmitt það sem góður blústónlistarmaður gerir, setur sál sína í verkið og skapar ákveðna samkennd með hlustandanum.
Ég var í partýi um daginn og skellti því í umræðuna að það væri allt í lagi að vera stundum bitur út í lífið eða leiður, hvað væri að því? Hvað væri að því að horfa inn á við stundum og leyfa sér að vera mannlegur. Það var horft á mig eins og ég væri þunglynd eða jafnvel eitthvað óeðlilegt við mig, bíddu viltu ekki vera hamingjusöm? Ég velti fyrir mér hvort þau hefðu ekki hlustað nógu mikið á blús til að skilja mig. Að mínu mati hjálpar það okkur að verða hamingjusöm ef við tökumst á við rammleikann þegar hann kemur. Það gerir lítið að synda á einhverri meðal gleði og upplifa aldrei neinar breytingar, með tilbúið og æft bros þegar það á við og jafnvel þegar það á ekki við.
Þannig virkar blústónlist á mig. Á einhvern undarlega jákvæðan hátt í öllu vonleysinu. Lífið er jú eftir allt erfitt og við mætum mörgum hindrunum og ákvarðanatökum. Lífið er líka gott og fallegt, sérstaklega þegar við vöknum eftir kaldan rigningardag eða erfiða nótt og sólin einhvernveginn skín bara að ástæðulausu.
Aftur að blúshátíð hér í lokin. Ég held að allir sem hafa áhuga á tónlist sem sýnir tilfinningar og vekur upp tilfinningar ættu að prófa að fara á blúshátíð. Þá er ég líka að tala um óstjórnlegar gleðitilfinningar. Hvar er það þá betra en í slíkri náttúruparadís sem mér finnst Hornafjörður vera í öllu mínu óhlutleysi. Þar verður blúsinn um mánaðarmótin, umkringdur fallegri náttúru, umvafinn og skapaður af skemmtilegu fólki.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Ég væri til í að skreppa á Höfn og kíkja á blúsinn. Mér finnst blús æðislegur.
Linda litla, 19.2.2008 kl. 21:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.