Á tímum erfiðleika

Nú blúsum við sem aldrei fyrr...

 

... þá líður okkur betur á eftir.           

Því þú veist það að sá sem samdi tregablúsinn leið mjög illa. Jafnvel verr en manni sjálfum. Það er ákveðin huggun í því.

Blúsarinn semur frá sínum innstu hjartarótum og opnar tilfinningasárin. Um leið er gott og endurnærandi að koma sorgum sínum í orð.

Blús er því ágætis sáluhjálp í kreppunni.


Rósenberg lifnar við

Það væri ekki svo vitlaust að koma með smá pistil hér í tilefni mánudagsgleðinnar. Það er neflilega blessunarlega kominn mánudagur og ég fegin að geta hafist handa við öll skólaverkefnin og lestextana. Í stað þess að vera í helgargírnum, letinni, kolaportinu, vídjóglápinu...já það er hreint út sagt leiðinlegt og allt og afslappandi til lengdar.

Annars er það nú helst í fréttum að Café Rósenberg er opnað aftur á Klapparastíg. Þetta er sannkölluð guðsgjöf fyrir tónlistarunnandann og ég hef nú þegar setið þar tvær kvöldstundir síðan opnaði. Þetta er aðeins stærra en gamli staðurinn á Lækjargötu en sama fólkið, sama starfsfólkið sem tekur á móti manni hlýlega og margir sömu gömlu hlutirnir á víð og dreif. Sami andinn mundi einhver orða. Þetta er og verður tvímælalaust staðurinn minn í vetur og ég hvet alla til þess að kíkja og upplifa stemninguna. Líka kósý að kíkja í kaffi á virkum degi eða hlusta á tónleika á fimmtudagskvöldum. Ég hlakka svo til þess þegar kólna fer að setjast inn, hlusta á góða tónlist með kaffibollann við hönd.

Ekki spillir svo fyrir að allir helstu og bestu tónlistarmenn landsins vilja spila á staðnum. Ásamt þeim sem eru að reyna fyrir sér og stíga sín fyrstu skref. Svo að þarna skapast bæði umhverfi við þann sem vill vita hvað hann fær og einnig þann sem elskar að uppgötva nýtt og ferskt tónlistarfólk. Ég vil akkurat blönduna af þessu tvennu, spennuna og einnig fyrirframvitaða fagmennskuna.

Eftir þennan stutta pistil um Rósen er vissara að koma sér aftur í skólabækurnar. Hef hafið mastersnám í Hagnýtri menningarmiðlun í HÍ í haust þannig að það er vissara að bretta upp ermarnar.


Greinin um Hlyn Pálmason

Birtist 06/08/08 á www.hornafjordur.is 

Stílhrein sköpunargleði

06.08.2008

Hornfirski listamaðurinn og kvikmyndagerðarneminn Hlynur Pálmason opnaði myndlistarsýningu á Höfn í Hornafirði 3-6 júlí. Sýningin hét "Sjónræn Dagbók" og samanstóð af ljósmyndum, málverkum og tveimur veggskúlptúrum úr tré og járni. Hlynur hélt svipaða sýningu fyrir ári síðan á sama stað í sýningarsal útfrá vinnustofu hans, í Graðaloftinu.

Ljósmyndirnar á sýningunni voru svart-hvítar í ramma sem Hlynur smíðaði og málaði. Þær voru teknar á filmu og svo unnar á "gamla" mátann með sérstökum aðferðum í myrkraherberginu í stað þess að notast við myndvinnsluforrit. Þetta gerði Hlynur til þess að ná fram málverkalegum áhrifum eins og hann sjálfur greindi frá. Vinnslan skilaði sér með áhugaverðari myndum og gaf þeim gamaldags öðruvísi útlit í stað þess að vera "spegilsléttar" og fullkomnar eins og svo oft vill verða í nútímaljósmyndun fyrir tilstilli tölvutækninnar. Fyrir utan þá áhugaverðu hugmynd um að blanda saman málverki og ljósmynd þá er hægt að segja að efni myndanna eða frásögn hafi ekki haft neitt sérstakt þema. Margar sýndu fólk eða staði, þá helst að þær væru teknar á réttum augnablikum, uppfullar af áhugaverðum smáatriðum.


Málverkin hafa breyst og stækkað hjá Hlyni á þeim stutta tíma sem hann hefur málað. Blendingsformið, ein helstu einkenni hans í listsköpuninni, er enn áberandi þar sem hann blandar saman aðferðum og efnum, olíu, spreyi, teikningum og textum. Ekki má gleyma klippimyndastílnum sem helst átti við um "sjálfsmyndina" af Hlyni með myndavélina sem var einskonar bland af ljósmyndaraunsæi, klippimynd með textum og olíumálverki. Helstu breytinguna á málverkunum var að sjá með einföldun í formanotkun; hringlaga eða kassalaga form sem áttu jafnvel að endurspegla einfaldar hugmyndir um lífið og tilveruna. Myndin Líf tvö var dæmi um slíkt og vakti athygli áhorfandans með einfaldleika sínum. Slíkt verk getur oft verið áhugavert að staldra við og virða fyrir sér.

Málverkin höfðu þó ekki endilega djúpa merkingu eða boðskap og ekki var að gæta neins heildarþema. Um leið varð "merkingarleysið" áhugavert á þann hátt að fagurfræðin og upplifunin hafði betur. Hlynur hefur einmitt sérstakan og frumlegan stíl þar sem hann blandar saman aðferðum í litríkum myndum á sinn eigin hátt með tilvísunum úr öðrum miðlum; ljósmyndun, kvikmyndun og tónlist. Þetta gerir hann einnig í ljósmyndunum þar sem hann blandar saman ljósmynd og málverki. Hann er augljóslega lítið undir áhrifum annarra listamanna (undirritaðri datt aðeins í hug nútímalistamaðurinn Rodney White sem notar tilvísanir úr auglýsingabransanum og afþreygingarmenningunni á svipaðan hátt í málverkinu).
Það er ljóst að Hlynur Pálmason er sífellt vaxandi listamaður sem lætur sér annt um heildarútlit sýningarinnar, að hún sé í raun öll eitt stórt heildarverk, ekki aðeins hvítir veggir með myndum á. Áhugavert væri að sjá fleiri skúlptúra eða verk úr tré frá honum í framtíðinni, líkt og tvö verka hans á sýningunni í Graðaloftinu sem voru stílhrein og frumleg. Blöndun aðferða og miðla er áhugaverð á þann hátt sem Hlynur sýnir og kannski má hin stanslausa merkingarleit í frásögn listarinnar einmitt víkja oftar fyrir hreinni sköpunargleði.

Hulda Rós Sigurðardóttir
Listfræðingur frá Háskóla Íslands

Meðfylgjandi myndir http://www.hornafjordur.is/menningarmidstod/2008/08/06/nr/5631


Blogg á lífi

Spurning um að halda þessari bloggsíðu á lífi annað slagið, svona sérstaklega ef færi að draga til tíðinda í tónlistarstússinu hjá mér sem er þó aldrei að vita.

Hef mest þessa dagana farið niður í blúskjallarann með gítarinn og þanið raddböndin og verð ég að viðurkenna að ég var farin að sakna þess all verulega! Það er algjörlega vanmetið að vera með sjálfum sér og syngja af mikilli tilfinningu þegar enginn sér til. Jafnvel bara hallærislegu útilegulögin í bland við annað.

Svo hef ég aðeins verið að semja eftir langa pásu. Það er nefnilega svoleiðis að á tímabili, sérstaklega fyrir 2-3 árum samdi ég einum of mikið, svo að hausinn á mér var nánast að springa af hugmyndum um laglínur og texta. Þannig að ég þurfi að hlaupa afsíðis við hvert tækifæri og skrifa niður með öllu tilheyrandi.

Svo allt í einu bara stoppaði flæðið, þangað til núna sem ég hef verið að fá ýmsar hugmyndir á ný. Stundum er bara gott að staldra við í lífinu og upplifa nýja hluti, verða fyrir nýjum innblæstri sem því fylgir að vera áhorfandi í smá stund.

Vonandi get ég þó farið að semja á ný, ég sakna þess ósköp mikið og finnst eins og hluti af sjálfri mér hafi týnst.

Svo er allt ágætt að frétta af Rökkurbandinu, ætla að kalla það Rökkurbandið af því að Heiðar er alltaf til í að vera með okkur sem er ekkert nema frábært og gefur lögunum og hljómsveitinni mikla fyllingu. Enda er hann tónlistarmaður í háum gæðaflokki. Það sannaðist á síðustu tónleikum í Pakkhúsinu að hljómsveitin er að sækja í sig veðrið og ég held að hún muni aldrei gera neitt annað en taka framförum. Til þess er líka leikurinn gerður... Wink


Frétt

Hulda Rós og Rökkurtríóið í Pakkhúsinu

01.07.2008

Annað kvöld, miðvikudaginn 2. júlí verða tónleikar í Pakkhúsinu á Höfn í Hornafirði. Eru tónleikarnir haldnir í samstarfi við Menningarmiðstöð Hornafjarðar og má einnig segja að þetta sé fyrsti viðburður Humarhátíðar á Höfn sem fer fram næstu helgi. Á þessum tónleikum kemur fram hin tiltölulega nýja hljómsveit Hulda Rós og Rökkurtríóið. Hljómsveitin hefur nú þegar komið fram á tveimur tónlistarhátíðum á þessu ári, Norðurljósablús á Höfn og Hammondhátíð á Djúpavogi og fengið góða dóma. Hljómsveitina skipa Sigurður Guðnason á gítar, Bjartmar Ágústsson á kontrabassa og rafbassa, Eymundur Ragnarsson á trommur, Heiðar Sigurðsson á píanó og hammond ásamt Huldu Rós Sigurðardóttur sem syngur. Hljómsveitin sem er eins og gefur að skilja hornfirsk í húð og hár, spilar aðallega djass og blússkotin lög, gömul og ný í ýmsum skemmtilegum útsetningum. Það verður því enginn svikinn af því að vera í Pakkhúsinu þetta kvöld, en þar skapast alltaf góð stemning á tónleikum, ekki síst fyrir tónlist af þessu tagi. Tónleikarnir hefjast kl 21.00 og kostar 1000 krónur inn.

Huldarós
Myndina tók Sigurður Mar á blúshátíðinni

..svona hljómar fréttin sem kom á hornafjordur.is. Ég er alveg að deyja úr spenningi. Við erum búin að æfa nokkur ný lög og hvíla önnur sem okkur fannst eiga frekar við á síðustu tónleikum. Þannig að þetta verður ekkert nema skemmtilegt. :-)


Larry Carlton í kvöld

Mín er spennt í dag.

Ég er að fara á Egilstaði eftir vinnu á tónleika með Larry Carlton. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hlustað mikið á það sem hann hafði brasað, þá helst Steely Dan nema það sem pabbi hafði leyft mér að heyra í gamla plötuspilaranum nokkrum sinnum.

Svo skoðaði ég manninn á youtube og ég varð dolfallin af færninni. Sérstaklega upptökurnar af djasshátíðum um heiminn eftir árið 2000 eru algjör snilld. Ég get örugglega búist við einhverju svipuðu í kvöld. Það er líka gaman að fara á tónleika sem maður veit ekki alveg út í hvað maður fer svona til tilbreytingar.

Svo er þetta hér http://www.youtube.com/watch?v=-R8NjNkFbxs með því allra flottasta sem ég hef séð á minni stuttu ævi. Það held ég bara. Fékk gæsahúð oftar en einu sinni, tár í augun og allan pakkann...


Æfingar á ný

Nú erum við loksins farin að æfa aftur í hljómsveitinni. Það er ekki eins og við höfum nokkurntímann æft mikið, þetta kemur oftast í "törnum" sem einkennast af 2-3 æfingum fyrir gigg. Nú höfum við komið fram á 2 tónlistarhátíðum og einum styrktartónleikum þannig að það segir mér að við höfum æft um 10 sinnum frá því að við byrjuðum eftir jól. Það mættu alveg verða fleiri æfingar að mínu mati en um leið verður þetta að vera lifandi og breytilegt prógram, þar sem óvæntir hlutir gerast á hverjum tónleikum fyrir sig.

Það hefur neflilega verið raunin hingað til að óvæntir hlutir gerast í hvert sinn. Það sem gerðist hinsvegar síðast á styrktartónleikunum er örugglega það fyndnasta til þessa. Málið er að það gleymdist alveg heilt erindi eftir sólóið þannig að strákarnir bara hættu að spila áður en ég gat byrjað síðasta erindið sem var að mínu mati lang flottast. Ég grét þetta samt ekki lengi og enginn tók eftir þessu í salnum.

Til þess að koma í veg fyrir svona ,,uppákomur" í lögum erum við að byrja að æfa aftur núna, fyrir tónleikana á miðvikudeginum fyrir Humarhátíð. Þetta verða eflaust skemmtilegir tónleikar því ég hef látið mig dreyma lengi að koma fram í Pakkhúsinu með slíku bandi. Ég get því lofað tónleikum sem gætu komið ykkur á óvart...svei mér þá. Hvað þá ef við æfum svolítið betur.

Svo verður maður eitthvað svo hress þegar þessar hljómsveitaræfingar byrja. Þær eru nefnilega ekki síður skemmtilegar en að koma fram. Mér hefur alltaf fundist jafn gaman að undirbúa og æfa, leika mér að syngja eitthvað með litla sem enga pressu á bakinu. Að koma fram er svo allt öðruvísi, meiri spenna og gaman á annan hátt.

Mæli svo með Jasshátíð á Egilsstöðum næstu helgi. Ég ætla allavega að skella mér á Larry Carlton á fimtudagskvöldið. Meira hér. http://www.jea.is/


Styrktartónleikar

Á fimmtudaginn næstkomandi verða haldnir styrktartónleikar á Hornafirði fyrir Öldu Berglindi Þorvarðardóttur. Hún greindist með illkynja sjúkdóm fyrir stuttu og málefnið því brýnt. Ég hvet alla til þess að mæta, Hornfirðinga sem og alla sem eiga leið hjá. Tónleikarnir hefjast kl. 20.00 í íþróttahúsinu og kostar 1000 kr. inn.

Dagskrána læt ég hér fylgja.

1. Kvennakór Hornafjarðar
2. Hilmar og fuglarnir
3. KUSK
4. Blásarakvartett
5. Vigil
6. Hulda Rós og Rökkurtríóið
7. Birkir, Stefán og Sveitalubbarnir
8. Stakir Jakar, félagar úr Karlakórnum Jökli
9. Atriði úr Rocky Horror
10. Parket
11. Sigríður Sif.


Skólalífið tekur við

Skólalífið tekur nú við hjá mér í örstuttan tíma í viðbót. Síðasta prófið í B.A. námi mínu er næsta miðvikudag. Áfanginn heitir Efnismenning, hlutirnir heimilið og líkaminn. Mjög áhugavert og mikið efni til að fara yfir. B.A ritgerðin er líka tilbúin, kannski verð ég orðin listfræðingur með menningarfræði sem aukagrein 14. júní. Sjáum hvað setur.

Hammondhátíðin er búin og gekk mjög vel. Við fengum góðar móttökur á Djúpavogi og eiga aðstandendur heiður skilið. Tónleikarnir á laugardeginum með stórsveit Samma voru líka alveg frábærir, ein mesta tónlistarupplifunin í langan tíma. Skelli inn umsögninni um okkur hér að lokum fyrir forvitna.

Hammondhátíðin 2008 var sett fimmtudaginn 1. maí á Hótel Framtíð á Djúpavogi. Forsprakki hennar frá upphafi hefur verið Svavar Sigurðsson og setti hann hátíðina að viðstöddu fjölmenni. Í upphafi vega var 1. kvöldið tileinkað heimamönnum en nú hefur "útbreiðslusvæðið" verið stækkað og flytjendur sóttir um stóran hluta Austfirðingafjórðungs. Það þýddi að mönnum var boðið upp á vaxandi hornfirzka sveit, ungliðasveit heimamanna og þétta blússveit úr Fjarðabyggð.

Kvöldið hófst með Huldu Rós og Rökkurtríóinu frá Hornafirði. Hulda Rós söng, Sigurður faðir hennar Guðnason lék á gítar, Eymundur Ragnarsson sá um slagverkið og Bjartmar Ágústsson sló bassann, bæði þennan "venjulega" sem og forláta kontrabassa. Í fjarveru Heiðars Sigurðssonar sá hr. Hammond, Svavar Sigurðsson, um að þenja Drottninguna (fyrrum Hammond orgel Karls heitins Sighvatssonar).
Prógrammið hófst rólega hjá bandinu sem lék blús og blússkotin lög eftir Tom Waits, Janis Joplin o.fl. Þegar á leið færðist nokkurt fjör í leikinn með meira tempói og skemmtilegheitum og salurinn tók vel við sér. Bandið var þétt og lítið hægt að setja út á það. Hulda Rós er frábær söngkona sem svo sannarlega á framtíðina fyrir sér. Hún hefur gott vald á röddinni, skemmtilegan tón og hefur þetta "extra" sem þarf til að geta sungið blús. Það hefði þó verið gaman að heyra hana fara oftar upp á háu tónana, því hún getur það auðveldlega.
Sé litið til þess að ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan þessi hljómsveit var stofnuð, er óhætt að segja að hún sé „bráðþroska“, því erfitt er að trúa aldrinum þegar þéttleikinn kemur í ljós, maður myndi frekar ætla að þarna væri hljómsveit með nokkurra ára reynslu á bakinu. En hljóðfæraleikararnir sem hana skipa eru ýmist mjög vaxandi eða orðnir þaulvanir.
Ef setja ætti út á eitthvað, væri það agavalið sem var kannski heldur mikið á rólegu nótunum, t.a.m. var uppklappið rólegur blússlagari. Engu að síður opnuðu Hulda Rós og Rökkurtríóið Hammondhátíðina með stæl og hituðu gesti upp fyrir það sem koma skyldi.

 



Hammondhátíð

Nú fer senn að líða að Hammondhátíð á Djúpavogi sem er árlegur viðburður þar í bæ og er nú haldin 1-4 maí næstkomandi.

 Í ár eru margar góðar hljómsveitir hluti af dagskránni þar sem hammondið er í aðalhlutverki. Á fimmtudeginum er Blúsbrot Garðars Harðar, föstudeginum Riot, með Jóni Ólafs, Björn Thor, Halldór Braga og fleiri góðir, Stórsveit Samma á laugardeginum, Kristjana Stefáns og fleiri á sunnudeginum. Þetta er veisla þar sem eitt flottasta hljóðfærið að mínu mati, hammond orgelið, er heiðrað.

Ég fór á þessa hátíð í fyrra og skemmti mér konunglega. Var að vísu bara eitt kvöld en ætla að reyna að bæta fyrir það í þetta skiptið. Ástæðan fyrir því er að ég er sjálf með hljómsveitinni minni á fimmtudeginum og dauðlangar að sjá sérstaklega föstudagskvöldið líka. Þetta lofar allt saman góðu.

 Kíkið á upplýsingar á www.djupivogur.is/hammond

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband